Innlent

Alþingi þarf að fara varlega

Eiríkur Tómasson lagaprófessor segir að Alþingi verði að fara varlega í að afgreiða frumvarp um kjaradóm og kjaranefnd sem nú liggur fyrir. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis útilokar ekki að það dragist fram yfir helgi að afgreiða frumvarpið. Rísi dómsmál, ef frumvarpið verður að lögum, verða allir starfandi dómarar vanhæfir til að fjalla um málið.

Frumvarpið fellir úr gildi launahækkanir til þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna sem kjaradómur úrskurðaði í desember. Frá og með gildistöku laganna eiga úrskurður kjaranefnda og kjaradóms eingöngu að taka mið af samningsbundnum hækkunum á vinumarkaði. Frumvarpið hefur vakið upp spurningar um stjórnarskrá en meðal gesta á fundi nefndarinnar í morgun var Eiríkur Tómasson sem segir Alþingi þurfa að fara varlega í að afgreiða það frumvarp sem nú liggur fyrir um kjaradóm og kjaranefnd.

Ákvæði í stjórnarskrá um að ekki megi lækka laun forseta á kjörtímabilinu, verður að skoða vel í þessu samhengi að mati Eiríks. Hann segir ekki þetta ekki fyllilega sambærilegt við áþekkt mál frá árinu 1992 þegar Kjaradómi voru settar nýjar forsendur og kveðið upp annan úrskurð.

Fulltrúar dómarafélagsins hittu nefndina í morgun en þeir telja frumvarpið ganga gegn stjórnarskránni. Hjördís Hákonardóttir formaður Dómarafélagsins segir málið mjög alvarlegt. Þarna sé tekist á um þrískiptingu ríkisvaldsins. Það sé alvarlegt að framkvæmdavaldið og ef löggjafarvaldið fari að hlutast til að breyta launum sem þegar hafi verið ákveðin af óvilhöllum aðila.

Pétur Blöndal formaður Efnahags og viðskiptanefndar segir að nefndin muni skoða frumvarpið vel en málið þurfi að klárast fyrir miðvikudag í næstu viku. Hann útilokar ekki að málið dragist fram yfir helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×