Lífið

Friðrik Ómar sneri niður ölvaðan ofbeldismann

óþægileg uppákoma Guðrún og Friðrik Ómar voru heppin að ekki fór verr þegar ölvaður maður réðst að þeim á árshátíð hjá Lyfjum og heilsu um síðustu helgi.
óþægileg uppákoma Guðrún og Friðrik Ómar voru heppin að ekki fór verr þegar ölvaður maður réðst að þeim á árshátíð hjá Lyfjum og heilsu um síðustu helgi.

Söngvararnir Friðrik Ómar Hjörleifsson og Guðrún Gunnarsdóttir lentu í heldur betur óþægilegri uppákomu þegar þau komu fram á árshátíð hjá Lyfjum og heilsu á Nordica um síðustu helgi.

„Við vorum í miðju lagi þegar það kom maður upp á sviðið og við sáum strax að hann var ekki allsgáður,“ segir Friðrik Ómar, en maðurinn byrjaði á því að grípa um hann og halda honum föstum. „Hann var eitthvað að bölsótast út í okkur en ég heyrði nú aldrei almennilega hvað hann var að reyna að segja. Það voru bara einhver leiðindi og ég frétti síðan að hann hefði verið eitthvað erfiður allt kvöldið.“

Friðrik Ómar hrinti manninum frá sér en hann fór þá að Guðrúnu og tók harkalega í hana líka. „Hún reyndi að forða sér og ég sá mig knúinn til þess að hjóla bara í hann og yfirbuga hann,“ segir Friðrik og hlær. „Ég sneri hann niður en þegar hann datt þá lenti hann ofan á hljóðfærum sem voru á sviðinu og eru í eigu hljómsveitarinnar Ísafold. Það skemmdust tvö hljómborð og eitthvað fleira en síðan komu fjórir menn hlaupandi og héldu honum niðri á meðan við forðuðum okkur út á hlaupum, skjálfandi á beinunum, enda höfðum við aldrei upplifað svona áður.“

Friðrik Ómar segist ekkert vita hvað gekk að manninum. „Við vorum náttúrulega þarna á árshátíð hjá Lyfjum og heilsu þannig að maður getur sér þess bara til að hann hafi verið að drekka ofan í lyf,“ segir hann hlæjandi enda alveg búinn að jafna sig á þessarri uppákomu en maðurinn var hins vegar handjárnaður og leiddur út af lögreglu. „Við höldum ótrauð áfram og erum með sýninguna Góða skemmtun á föstudaginn á Broadway þannig að við látum þetta ekkert trufla okkur. Við meiddumst sem betur fór ekki neitt en erum með eymsli í handleggjunum,“ segir söngvarinn Friðrik Ómar hress og kátur eftir átök helgarinnar. Guðrúnu hefur augljóslega ekki heldur orðið meint af árásinni þar sem hún var eldhress að vanda í þættinum Sex til sjö í gær og fyrradag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.