Innlent

Spölur kemur líklega að framkvæmdum við Sundabraut

MYND/Vísir

Líklegt má telja að Spölur komi að framkvæmdum við Sundabraut. Þó hefur ekki verið rætt hvort það snúi einnig að fjármögnun verkefnisins.

Stjórn Faxaflóahafna lýsti í fyrradag yfir áhuga á að hefja viðræður við ríkið um að taka þátt í fjármögnun Sundabrautar og stækkun Hvalfjarðarganga, og hefur stjórnin falið Árna Þór Sigurðssyni stjórnarformanni og Gísla Gíslasyni hafnarstjóra að óska eftir þessum viðræðum við stjórnvöld. Gísli, sem er líka stjórnarformaður Spalar, tekur jákvætt í að fyrirtækið komi einnig að verkefninu. Spölur sé enda að stórum hluta í eigu Faxaflóahafna og ríkisins sem hafi verulega hagsmuni af því að Sundabrautin hafi farsælan framgang. Aðspurður hvort aðkoma fyrirtækisins snúi einnig að fjármögnun segir Gísli það eina af stóru spurningunum sem eigi eftir að ræða við ríkið um. 

Aðspurður hvort nokkurt vit sé í því að tvöfalda Hvalfjarðargöngin, ef vegurinn að þeim er ekki tvöfaldaður líka, segir Gísli að það sé mikill vilji allra sem koma að málinu að horfa á göngin og Sundabraut í einum pakka. Og hann segir mikilvægt að fara að einfalda ferlið þannig að hægt sé að fara að sjá fyrir upphaf framkvæmdanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×