Innlent

Tæpur helmingur olíunnar eftir í skipinu

Sterkar líkur benda til að um 70 tonn af svartolíu séu þegar lekin úr botntönkum flutningaskipsins Wilson Muuga á strandstað við Hvalsnes. Sé það raunin eru aðeins 50 tonn eftir af svartolíu í hliðartönkum þess. Auk þess bendir margt til þess að um helmingur af rúmum þrettán tonnum af gasolíu í skipinu, sé líka lekinn út.

Menn sem fóru á vettvang í morgun á vegum Umhverfisstofnunar, fundu olíulykt til hlés við skipið, en sáu enga olíuflekki eða olíusmitaða fugla. Þrátt fyrir ágjöf í nótt er skipið enn á réttum kili og virðist lítið hafa hreyfst úr stað.

Hætt er við að sprungur, sem sáust í skipinu í gær, hafi gliðnað enn frekar í nótt. Þar sem straumur fer stækkandi er skipið nánast á þurru á fjöru, og lekur þá olían úr því, en svo vilrðist sem hafrótið skoli henni burt, enda er gríðarlegt sog á löngum grynningum , sjávarmegin við skipið. Í ljósi þessa verður væntanlega metið upp á nýtt, hvort ástæða sé til þess að reyna dælingu úr skipinu við hættulegar aðstæður eins og nú. Í ljósi nýrrar stöðu á strandstað verður rætt við Kristján Geirsson fagstjóra mengunarvarna hjá Umhverfisstofnun í hádegisviðtalilnu hér á eftir fréttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×