Talið er að á bilinu 50-60 þúsund manns hafi lagt leið sína í miðbæinn í gær til þess að fylgjast með hátíðardagskrá í tilefni þjóðhátíðardagsins.
Að sögn Geirs Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns í Reykjavík, er þetta nokkuð minni fjöldi en var í fyrra. Veður var með ágætasta móti í borginni og lítið rigndi eftir hádegið. Tvær stórar skrúðgöngur fóru niður í miðbæ, önnur úr Vesturbænum og hin frá Hlemmi. Allt fór vel fram að sögn lögreglu en hún fékk þó kvartanir vegna hunda í miðbænum. Veður var áþekkt um allt land og alls staðar gengu hátíðahöld tíðindalítið fyrir sig.