Innlent

Svipti sig lífi eftir ásakanir um kynferðisbrot

Karlmaður á sextugsaldri svipti sig lífi í morgun, eftir að DV birti mynd af honum á forsíðu og bendlaði hann við kynferðislegt ofbeldi gegn ungum piltum. Ásakanirnar gegn honum hafa ekki verið sannaðar og bróðir mannsins segir að DV hafi nánast rekið hann í dauðann.

Á forsíðu DV í morgun var birt mynd af karlmanni með fyrirsögninni „Einhentur kennari sagður nauðga piltum“. Fréttin fjallaði um kæru tveggja pilta á hendur manninum fyrir kynferðislegt ofbeldi. Sjálfur sagði maðurinn málið byggt á misskilningi. Þrátt fyrir að enginn dómur hafi fallið í málinu sem í raun er á frumstigi og að orð standi gegn orði, taldi DV rétt að birta mynd af manninum á forsíðu.

Í morgun fann vinur mannsins hann á heimili hans og hafði hann þá tekið eigið líf. Bróðir mannsins sagði í samtali við fréttastofu að fjölskyldan væri sundurtætt af sorg vegna þessa harmleiks. Hann sagðist hafa hringt á ritstjórn DV í dag til að tilkynna þeim andlát bróður síns og fundist rétt að gera það, þar sem hann teldi að fréttaflutningur DV hefði nánast rekið bróður sinn í dauðann.

Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV sagðist ekki vera beinn málsaðili að málinu og því vildi hann ekki tjá sig um það þegar fréttastofa hafði samband við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×