Erlent

Ekki jafn mikil hætta í Tyrklandi og talið var

AP

Niðurstöður rannsókna á sýnum úr tólf sjúklingum í Istanbúl í Tyrklandi benda ekki til að þeir séu með fuglaflensusmit eins og óttast var. Mikil skelfing hefur gripið um sig í landinu vegna málsins sem og í nágrannalöndunum, Búlgaríu og Grikklandi, en heilbrigðisráðherrar Evrópusambandsríkjanna segja þó ekkert að óttast.

Fjöldaslátrun á fuglum er fyrirhuguð í nokkrum úthverfum Istanbul, fjölmennustu borg landsins en þar búa fátækir íbúar, sem flutt hafa til borgarinnar frá sveitum landsins og ala fugla sér til viðurværis. Sjö sjúkrahús hafa verið í viðbragðsstöðu í Tyrklandi eftir að 14 einstaklingar voru sagðir smitaðir af H5N1 afbrigði fuglaflensuveirunnar, mannskæðustu tegund veirunnar. Þar á meðal voru tvö börn sem létust í síðustu viku en þau voru fyrstu sjúklingarnir sem látast af völdum veirunnar í Evrópu.

Heilbrigðisráðherra Tyrklands, sem hefur heimsótt Van hérað þar sem veikin kom fyrst upp, segir að tekist hafi að ná tökum á vandamálinu og að ekki sé hætta á faraldri. Ráðamenn í Rússlandi hafa þó varað við ferðalögum til Tyrklands og er óttast að ferðamannaiðnaðurinn muni skaðast vegna málsins sem og í nágrannalöndunum Búlgaríu og Grikklandi. Heilbrigðisráðherrar Evrópusambandsríkjanna halda því þó enn fram að raunveruleg hætta sé ekki á ferðum, vandinn sé og muni verða aðallega í Asíu, þar sem tæplega 80 manns greindust í vikunni af fuglaflensu þó ekki H5N1, en tilfelli fuglaflensunnar hafa einnig komið upp í fimm Evrópulöndum.

Ástæða sé þó til að hafa varan á og gera þær ráðstafanir sem til þarf ef svo ólíklega vildi til að veiran skyldi breiðast út. Vísindamenn segja þó að veiran gæti auðveldlega tekið stökkbreytingum sem valdi því að hún berst milli manna og þannig valdið alheimsfaraldri.



AP
AP
AP
AP
AP
AP
AP
AP
AP
AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×