Innlent

Mikil bið eftir flugi

Miklar tafir hafa verið á öllu innanlands- og millilandaflugi í dag. Veðurútlit fyrir eftirmiðdaginn er þar að auki ekki gott. Miklar raðir eru nú við innritun í flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli.

Ófært var í morgun til allra flugáfangastaða innanlands nema Egilsstaða. Þeir hefur verið að opnast einn af öðrum í morgun, nú síðast var tilkynnt um að fært væri til Akureyrar og fóru tvær flugvélar þangað á tólfta tímanum. Enn er samt ófært til Ísafjarðar. Margir bíða flugs og verður flogið eins og hægt er meðan veður leyfir en alls óvíst er hvernig verður með innanlandsflug eftir hádegi þar sem von er á öðrum veðurhvelli.

Verulegar seinkanir eru einnig á millilandaflugi og síðustu morgunvélarnar fara ekki í loftið frá Keflavík fyrr en um og upp úr hádegi. Þetta hefur síðan þau áhrif að vélarnar koma seint til baka frá Evrópu og í Bandaríkjaflug, þannig að útlit er fyrir áframhaldandi seinkanir í dag. Þá er enn þoka á Heathrow og á Gatwick og tafir vegna þess. Þar ofan á bætist versnandi veður eftir hádegi og á Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri, von á að vindhviður fari á ný yfir 25 m/s eins og í gær, sem þýðir að ekki má nota landganga flugstöðvarinnar. Talsmaður Icelandair segir hins vegar að allt kapp verði lagt á að koma öllum farþegum þangað sem þeir vilji komast fyrir jól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×