Innlent

Forseti Íslands var 66 daga í útlöndum.

Forseti Íslands var talsvert á faraldsfæti á liðnu ári í ýmsum opinberum erindagjörðum. Þannig fór hann í 14 embættisferðir til átta landa. Þar á meðal opinbera heimsókn til Kína og Bandaríkjanna, sem Ólafur heimsótti raunar fimm sinnum, auk þess sem Indland var sótt heim á árinu.

Meðal annarra staða sem forsetinn heimsótti á árinu voru Búlgaría og Bretland, sem naut nærveru Ólafs þrisvar þetta árið. Rússland og Noregur voru líka heimsótt enda fundaði Ólafur á báðum stöðum sem verndari stórs forvarnarverkefnis gegn fíkniefnabölinu. Ferð Ólafs til Mónakó er eflaust mörgum fersk í minni en hún var síðust í röðum embættisferða hans á árinu.

Samtals var Ólafur 66 daga erlendis á síðasta ári, en í svari við fyrirspurn NFS til forsetaskrifstofu fylgdi með að þar sem brottfarar- og komudagar séu með í tölunum verði að geta þess að Ólafur mætti til vinnu 17 daga af þeim 66. Ekki fengust upplýsingar um einkaferðir forsetans þar sem þær eru farnar í hans eigin reikning og ekki greiddir út dagpeningar á einkaferðum hans.

Talsvert umstang er jafnan tengt ferðum forseta um Leifsstöð, þó dagar silfurborðbúnaðar og þéringa í flugvélum séu taldir. Þannig fylgir jafnan handhafi forsetavalds, forseti hæstaréttar eða alþingis, jafna forseta út á völl ásamt lögreglu, í þeim tilgangi að taka formlega við forsetavaldinu. Forsetinn ferðast þó ekki með lággjaldaflugfélögum og situr jafnan á Saga Class.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×