Innlent

Sterling brýtur samkeppnislög

MYND/Stöð 2/NFS

Dönsk samkeppnisyfirvöld segja lággjaldaflugfélagið Sterling, sem er í eigu Íslendinga, brjóta lög með því að innheimta of há gjöld af flugmiðum sem keyptir eru með greiðslukortum. Jótlandspósturinn greindi frá þessu á vefsíðu sinni seint í gærkvöld. Þar er fullyrt að Sterling hafi engan metnað til að vera lággjaldaflugfélag, alla vega ekki á meðan það rukki álagningu af öllum þeim miðum sem greitt er fyrir með kreditkorti, eins og reyndin sé. Blaðamaður segir álagninguna vera um tíu prósent af verðinu, en það sé breytilegt eftir því hvaða kreditkort viðskiptivinurinn noti.

Tekið er dæmi af kúnna sem kaupir flugmiða á 260 danskar krónur, eða um 2600 íslenskar. Hann þarf að borga þrjú hundruð íslenskar krónur í kostnað ef hann borgar með ákveðnum kreditkortum, en þeirra á meðal er Amercian Express. Borgi hann hins vegar með Visa eða Mastercard bætist hundrað króna álagning við verð flugmiðans. Að sögn Jótlandspóstsins innheimta kreditkortafyrirtækin hins vegar í mesta lagi 1,25 prósent af miðaverðinu í færslugjöld, eða - svo við höldum okkur við fyrra dæmi - um 33 krónur af miða sem kostar 2600 krónur. Sterling hirðir svo mismuninn. Þetta segja dönsk samkeppnisyfirvöld vera ólöglegt en ekki fylgir sögunni hvort Sterling verði ákært eða beitt einhvers konar refsingu fyrir athæfið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×