Innlent

Á bilinu 600-700 messur og helgistundir yfir hátíðarnar

MYND/GVA

Messur og helgistundir á vegum Þjóðkirkjunnar verða á bilinu 600-700 á landinu nú yfir hátíðarnar og áramótin, eftir því sem segir í tilkynningu frá Biskupsstofu.

Í Reykjavík, Seltjarnarnesi og Kópavogi verða um 160 messur og helgistundir þessa daga, bæði í kirkjum og á sjúkrahúsum, dvalarheimilum og víðar. Upplýsingar frá prófastsdæmum víða um land sýna að víða er messað í öllum sóknarkirkjum prestakalla og helgihaldið skipar veigamikinn sess.

 

Fram kemur í tilkynningunni að í Þingeyjarprófastsdæmi verði 33 almennar guðsþjónustur þessa daga, í Vestfjarðaprófastsdæmi 40, í Húnavatnsprófastsdæmi 26 og Árnesprófastsdæmi 45. Í Múlaprófastdæmi verða 25 messur og helgistundir þessa daga sem og í Rangárvallaprófastsdæmi. Í Skaftafellsprófastsdæmi verða 18 guðsþjónustur og helgistundir.

Það reynist mörgum börnum erfitt að þreyja aðfangadaginn og því er víða samverustund í kirkjum um eftirmiðdaginn fyrir börnin. Þetta á við um margar kirkjur á höfuðborgarsvæðinu en einnig meðal annars á Skagaströnd og í Landkirkju í Vestmannaeyjum. Einnig verður sérstök messa í kirkju heyrnarlausra.

 

Upplýsingar um helgihald og messur má finna á vefsíðum kirkna en yfirlit yfir slíka vefi er að finna á www.kirkjan.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×