Lífið

Simma í Idol boðið öruggt þingsæti

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins þykir forkólfum Framsóknarflokksins ekki seinna vænna en að draga Simma á flot og inn á þing.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins þykir forkólfum Framsóknarflokksins ekki seinna vænna en að draga Simma á flot og inn á þing.

„Ég vil ekkert tjá mig um þetta mál,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, betur þekktur sem grallarinn og spaugarinn Simmi í Idol.

Fréttablaðið hefur fyrir því áreiðanlegar heimildir að Simma hafi verið boðið öruggt þingsæti fyrir næstu kosningar. Simmi hefur látið til sín taka í tengslum við ýmis verkefni fyrir Framsóknarflokkinn í gegnum tíðina; kom ið að vel heppnaðri kosningabaráttu fyrir síðustu kosningar, verið innsti koppur í búri í kosningamaskínu Björns Inga Hrafnssonar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og lesið inn á auglýsingar fyrir Framsóknarflokkinn svo eitthvað sé nefnt.

Ef til vill er það til marks um ákveðna krísu Framsóknarflokksins og mannafæð að leitað var til Simma því hann hefur ekki haft nein áform um pólitískan frama í náinni framtíð. Í samtali við Fréttablaðið segist hann þó ekki vita hvað verði í þeim efnum.

Hann harðneitaði að staðfesta að þetta tilboð hafi verið uppi - en vildi ekki tjá sig þegar spurt var hvort hann hafnaði því að áðurnefnt tilboð hefði borist honum frá yfirstjórn flokksins.

Það mun hafa verið í norð-austur kjördæmi, helsta vígi Framsóknarflokksins, og var Simma boðið annað sætið á eftir Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra. Þriðja sætið, sem menn ætla baráttusæti í kjördæminu, ætlaði þá Birkir J. Jónsson formaður fjárlaganefndar að taka. En þar sem Simmi, sem ættaður er frá Egilsstöðum og vel liðinn í sinni sveit, hafnaði boðinu þrátt fyrir mikinn þrýsting, stefnir í að Birkir setjist nú í annað sæti á lista.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.