Lífið

Líkaminn fram yfir lífið

Þessi mynd frá tískuvikunni í Madríd vakti mikla athygli enda fyrirsætan óheyrilega grönn.
Þessi mynd frá tískuvikunni í Madríd vakti mikla athygli enda fyrirsætan óheyrilega grönn.

Umræðan um of mjóar fyrirsætur fer hátt um þessar mundir en átröskunarsjúkdómar og svelti hafa löngum verið tengd tískuheiminum. Nú hafa tvær frægar fyrirsætur dáið úr átröskunarsjúkdómnum með stuttu millibili og þær fréttir skekja nú tískuheiminn.

Í ágúst á þessu ári dó hin 22 ára gamla fyrirsæta Luisel Ramos eftir að hafa fallið í yfirlið á tískusýningu. Ramos þjáðist af átröskun og var víst búin að vera matarlaus í nokkra daga áður en hún dó vegna hjartabilunar. Ramos var frá Úrúgvæ en í Suður-Ameríku fer tíðni átröskunar hækkandi.

Dauðsfall hennar varð upphafið að umræðunni og brugðust margir við. Stjórnvöld í Madríd bönnuðu of mjóar fyrirsætur á sýningarvikunni þar og mörg stór nöfn í tískubransanum hafa lýst yfir stuðningi sínum við þetta uppátæki.

Nú fyrir stuttu dó svo hin 21 árs gamla Carolina Reston frá Brasilíu en hún þjáðist af anorexíu. Reston var á leiðinni til Parísar í viðtal við tískuhús Giorgio Armani og því á mikilli uppleið í bransanum. Þremur dögum fyrir viðtalið lést Reston á sjúkrahúsi í Sao Paulo og hafa hennar nánustu sagt að matarvenjur Reston hafi einkennst af tómötum og eplum einum saman. Reston hóf fyrirsætustörf aðeins 13 ára gömul.

Hinn margrómaði tískukóngur Giorgio Armani hefur einnig lýst yfir stuðningi sínum við baráttuna gegn átröskunarsjúkdómum og segist bara vilja kvenlega vaxnar fyrirsætur í sýningar sínar. „Fyrirsætur hafa stundum verið taldar aðeins gangandi herðatré en hið ofurgranna útlit er nú dottið úr tísku og heilbrigðið tekið við," segir Armani.

Þetta er umdeilt mál og spurning hvernig fólk beri sig að til að sporna við dauðsföllum af þessu tagi. En svo mikið er víst að eitthvað verður að gera því fyrirsætur í dag eru jú fyrirmyndir kvenna á öllum aldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.