Lífið

Landsliðið til Lúxemborgar

á lokaæfingu á þriðjudagskvöld
Landsliðið heldur í heimsmeistarakeppnina í Lúxemborg á morgun.
fréttablaðið/brink
á lokaæfingu á þriðjudagskvöld Landsliðið heldur í heimsmeistarakeppnina í Lúxemborg á morgun. fréttablaðið/brink

Á morgun heldur Landslið matreiðslumanna í heimsmeistarakeppnina í Lúxemborg, en hún stendur yfir 18. til 22. nóvember. Liðið er skipað átta úrvalskokkum, og gegna þeir Ragnar Ómarsson, yfirmatreiðslumaður á Salti, og Bjarni Gunnar Kristinsson, yfirmatreiðslumaður á Grillinu, stöðum spilandi þjálfara.

Annars vegar er keppt í heitu eldhúsi, og hefur liðið þá fimm klukkutíma til að snara fram þriggja rétta matseðli fyrir 115 manns, og hins vegar í köldu borði. „Í heita matnum eigum við að vera með fisk eða skelfisk í forrétt, kjöt í aðalrétt og svo eftirrétt, en það er undir hverju landi komið hvað þeir gera. Við verðum með humar og bleikju í forrétt og lamb í aðalrétt. Við höfum verið með lambið í mörg ár og dómararnir hlakka alltaf til að fá það," sagði Ragnar.

Stífur undirbúningur bíður liðsins í Lúxemborg. „Við fáum hóteleldhúsið lánað. Það er náttúrlega í notkun á daginn en við vinnum bara vel á nóttunni og sofum í törnum," sagði Ragnar. Íslenska liðið hefur staðið sig frábærlega undanfarin ár, en í ár stefnir liðið að því að halda stöðu sinni á topp tíu-listanum. „Það er nóg af þjóðum á hælum okkar," sagði Ragnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.