Lífið

Neitar að hreinsa mannorð Mills

Nafn Heather Mills bar á góma í viðtali sem hin virta sjónvarpskona Daphne Barak tók við vopnasalann Adnan Khashoggi. Því hefur lengi verið haldið fram að fyrirsætan og fyrrum eiginkona Pauls McCartney hafi gert sig út sem vændiskona á árum áður og Khashoggi hafi verið einn viðskiptavinanna.

Talið er að fortíð Mills gæti verið dregin fram þegar skilnaður hennar og Bítilsins Pauls McCartney verður tekinn fyrir í breskum réttarsölum snemma á næsta ári en deilur þeirra virðast nú vera í rénun eftir að hafa verið á forsíðum götublaðanna í Bretlandi undanfarnar vikur.

Frá því er greint í netútgáfu Daily Mail að Khas-hoggi hafi viðurkennt að Mills hafi sótt teiti hjá sér á Marbella árið 1988 en vildi hins vegar ekki staðfesta það beint að hann hefði greitt henni fyrir að sofa hjá sér. „Hverjum er ekki sama?" svaraði Khashoggi þegar sjónvarpskonan Barak gekk á hann með spurningar um Mills.

Tvær fyrrverandi fylgdarkonur hafa báðar lýst því yfir í fjölmiðlum á undanförnum árum að Mills hafi átt í nánum samskiptum við ríka karla gegn greiðslu en fyrirsætan hefur ávallt neitað öllum ásökunum. Khashoggi sagði að þetta væru deilur milli kvenna en neitaði hins vegar að hreinsa mannorð Mills. Hann vildi þó að Bretar sýndu Heather meiri samúð á þessum erfiðu tímum. „Mills fann mann sem hún elskaði en hún hefði mátt leggja harðar að sér í hjónabandinu," sagði Khashoggi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.