Lífið

Hlynur Íslandsmeistari í málmsuðu

"Þetta var jöfn keppni en ég hafði þetta að lokum," segir Hlynur Guðjónsson, nýbakaður Íslandsmeistari í málmsuðu. Mótið fór fram í Borgarholtsskóla á miðvikudag.

Þar öttu kappi átján bestu málmsuðumenn landsins frá níu fyrirtækjum. Þetta var þrettánda Íslandsmeistaramótið sem haldið er hér á landi, það fjórða sem Hlynur keppir á og það fyrsta þar sem hann stendur með pálmann í höndunum.

Keppt var í sex suðuaðferðum til Íslandsmeistara og að sögn Hlyns er ekki endilega það sama suða og suða. "Það eru allskyns stellingar og aðferðir í þessu fagi. Þetta er handverk og eins og í hverri annarri vinnu þarf að horfa til gæðanna sem geta verið misjöfn," segir Hlynur, sem auk þess að hampa Íslandsmeistaratitlinum bar sigur úr býtum í pinnasuðu.

Hlynur verður fulltrúi Íslands á Norðurlandamótinu í málmsuðu, sem haldið er í Tampere í Finnlandi 8. til 10. nóvember og heldur utan í dag. "Ég veit eiginlega ekki hvað ég er búinn að koma mér út í. Norðurlandamótið er miklu erfiðari, miklu flóknari bitar að sjóða en á Íslandsmótinu." Hlynur kveðst þó hafa mikinn metnað fyrir Íslands hönd og hefur æft stíft öll kvöld vikunnar til að ná sem bestum tökum á blæbrigðum málmsuðunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.