Lífið

Mustanginn sigraði montbílakeppnina

Sigfús B. Sverrisson mun ekki spóka sig á montbíl ársins næstu mánuði þar sem hann er kominn í vetrardvala undir ábreiðu í skúr. „Ég er samt búinn að fara og klappa honum,“ segir eigandinn stoltur og játar fúslega að heiðurinn kitli hégóma bíladellukarlsins.
Sigfús B. Sverrisson mun ekki spóka sig á montbíl ársins næstu mánuði þar sem hann er kominn í vetrardvala undir ábreiðu í skúr. „Ég er samt búinn að fara og klappa honum,“ segir eigandinn stoltur og játar fúslega að heiðurinn kitli hégóma bíladellukarlsins.

„Ég brosi í gegnum tárin eins og fegurðardrottning,“ segir bíladellukallinn Sigfús B. Sverrisson sem sigraði montbílakeppnina Show Off of the Year 2006 með Ford Mustang Fastback kagganum sínum í síðustu viku.

Fréttablaðið greindi frá því nýlega að Mustanginn væri kominn í úrslit keppninnar ásamt fjórum öðrum drossíum en úrslitin réðust í netkosningu á heimasíðunni CarDomain.com og voru kynnt á SEMA bílasýningunni í Bandaríkjunum.

„Þetta er mjög ánægjulegt,“ segir Sigfús og viðurkennir að þessi heiður kitli stoltið. „Ég brosi allan hringinn enda kom þetta nokkuð á óvart þar sem ég var þarna að keppa við fulltrúa milljónaþjóðar og þó ég hafi beðið nokkra vini og kunningja um að kjósa mig átti ég ekki von á að það myndi duga til.“

Sigfús efast þó ekki um að Mustanginn hafi verið vel að verðlaununum kominn. „Ég held að Mustanginn sé sá flottasti af þessum fimm. Það var einn Camaro þarna sem var búið að leggja töluvert í en hann var bara smekklaus. Þetta voru samt verðugir andstæðingar.“

Sigfús sleppti því að fara á sýninguna og var því ekki viðstaddur þegar úrslitin voru tilkynnt. „Ég hefði farið ef ég hefði fengið að vita þetta fyrirfram en sá ekki ástæðu til að leggja í þetta ferðalag þar sem líkurnar á sigri voru einn á móti fimm.“

Sigfús segist ekki vita hversu mörg atkvæði liggi að baki sigrinum en telur víst að heitar tilfinningar Bandaríkjamanna til Mustang bíla hafi haft sitt að segja. Þá telur hann víst að umfjöllun Fréttablaðsins um keppnina hafi aflað honum stuðnings hér heima. „Ég vil því skila þakklæti til þeirra Íslendinga sem lögðu mér lið og stuðluðu að því að Mustanginn endar örugglega sem frægasti bíll landsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.