Lífið

Metnaðarfullir unglingar á Stíl 2006

Segir metnaðinn hjá þáttakendum Stíls vera mikinn.
Segir metnaðinn hjá þáttakendum Stíls vera mikinn. MYND/Vilhelm

Hönnunarkeppnin Stíll, sem haldin er á vegum Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, fer fram í sjötta skiptið þann 18. nóvember, en þar keppa unglingar í fatahönnun, hárgreiðslu og förðun.

Margrét Ægisdóttir er einn af forsvarsmönnum Stíls, en hún vinnur einnig fyrir félagsmiðstöðina Mekka í Kópavogi. „Hugmyndin kviknaði hjá okkur í Kópavogi, síðan keppnin hefur undið upp á sig og stækkað ár frá ári. Hún er orðin mjög flott og metnaðurinn hefur aukist mikið hjá krökkunum sem taka þátt,“ sagði Margrét. „Í fyrra kepptu fjörutíu og átta lið, og vonandi verður það svipað í ár.“ Félagsmiðstöðvar af öllu landinu geta tekið þátt í Stílnum, og mega senda eitt lið hver. „Það er svo mikill áhugi hjá krökkunum að margar félagsstöðvar eru með undankeppnir líka,“ sagði Margrét. „Þetta er stór keppni og við bjóðum upp á ýmis skemmtiatriði.

Það eru tískusýningar frá fataverslunum og skemmtiatriði frá félagsmiðstöðvum í Kópavogi, og svo höfum við alltaf fengið þekkta tónlistarmenn. Í ár verða það Pétur Ben og svo Svitabandið, ásamt fleiri gestum. Til dæmis koma leikarar úr Patrekur 1,5,“ sagði Margrét.

Margrét segir þá listsköpun sem unglingum er boðið upp á geta verið staðlaða. „Á Stíl fá þau tækifæri til að gera það sem þau langar til, út frá ákveðnu þema sem í ár er Móðir Jörð. Krakkarnir vinna hönnunina frá grunni og gera hárgreiðslu og förðun sem samræmist heildarmyndinni,” sagði Margrét. Stíll 2006 fer fram í Íþróttahúsinu Smáranum í Kópavogi þann 18. nóvember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.