Lífið

Ægivald framleiðenda í X-Factor

Keppendum í X-Factor er gert skylt að skrifa undir samninga eins og gengur og gerist í raunveruleikaþáttum og er hann þýddur beint frá Freemantle-fyrirtækinu sem á réttinn á þættinum en hann verður á dagskrá Stöðvar 2 í vetur.

Eitt ákvæðið vekur hvað mesta athygli en þar er tekið skýrt fram að:

Framleiðendur mega, að eigin geðþótta, ómerkja ákvörðun lærimeistaranna eða úrslit atkvæðisgreiðslu almennings hvenær sem er á meðan á keppninni stendur.

Þegar Fréttablaðið hafði samband við Þór Freysson, framleiðslustjóra þáttanna, vissi hann af þessu ákvæði en tók skýrt fram að þetta væri ákveðinn varnagli til varnar þættinum sjálfum. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst voru reglur um atkvæðagreiðsluna mun skýrari í Idol-keppni Stöðvar 2 enda réð hún þar algjörum úrslitum um framtíð keppenda. X-Factor er fyrst og fremst sjónvarpsþáttur og við þurfum að passa upp á það, útskýrir Þór en áréttaði að hann teldi mjög ólíklegt að þessu ákvæði yrði beitt og lýsti því yfir að ef svo ólíklega kynni að fara yrði það án nokkurs vafa gert opinbert.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst eru þessar reglur settar ef að framleiðendur sjá fram á að vinsælir eða góðir keppendur gætu verið á leiðinni úr sjónvarpinu. Þór bendir ennfremur á að keppendum verði vísað úr keppni með allt öðrum hætti en var í Idol-keppninni því annað hvort munu tveir neðstu berjast um eitt laust sæti og mun dómnefndin skera úr um hvor var betri eða að sá þátttakandi sem varð neðstur í atkvæðagreiðslu verði vikið úr keppni beint.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.