Lífið

Brennandi áhugi á íþróttum vegur upp á móti vinnutímanum

þorsteinn gunnarsson Formaður Samtaka íþróttafréttamanna segir það ekki fyrir hvern sem er að vera íþróttafréttamaður.
þorsteinn gunnarsson Formaður Samtaka íþróttafréttamanna segir það ekki fyrir hvern sem er að vera íþróttafréttamaður. MYND/GVA

Samtök íþróttafréttamanna eru fimmtíu ára í ár og fagna afmælinu í Eldborg við Bláa lónið laugardaginn 28. október.

Að sögn Þorsteins Gunnarssonar, formanns Samtaka íþróttafréttamanna, verður mikið um dýrðir á afmælinu, enda sannarlega tilefni til og hefur undirbúningur staðið yfir frá því í sumar.

Á meðal gesta í afmælisveislunni verða íþróttafréttamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð og þá mun Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mæta á staðinn. Veislustjóri verður Hermann Gunnarsson.

Þorsteinn segir það ekki fyrir hvern sem er að vera íþróttafréttamaður. Þeir endast aðeins í þessu starfi sem hafa brennandi áhuga á íþróttum og þeirri spennu og oft á tíðum óvæntu atburðarrás sem fylgir starfinu. Vinnutíminn er ekki sérlega fjölskylduvænn, eða aðallega á kvöldin og um helgar og því er þetta ekki fyrir hvern sem er, segir Þorsteinn. Mér finnst reyndar merkilegt hversu litlar breytingar hafa verið á mannskap á sumum miðlum undanfarin ár sem sýnir að íþróttafréttamenn eru ánægðir í sínu starfi, enda fjölbreytt og skemmtilegt og mikil forréttindi að starfa við sitt áhugamál, segir hann.

Að sögn Þorsteins voru Samtök íþróttafréttamanna aðallega stofnuð á sínum tíma til þess að standa að kjöri Íþróttamanns ársins sem þau hafa gert með sóma allar götur síðan. Samtökin vinna einnig að ýmsum hagsmunamálum fyrir félagsmenn og stuðla að aukinni samvinnu félagsmanna, eins og segir í lögum samtakanna. Aðstaða íþróttafréttamanna á leikvöngum og íþróttahúsum hefur breyst til batnaðar undanfarin ár en að sögn Þorsteins er reyndar víðar potturinn brotinn í þeim efnum og þar ætla samtökin að beita sér meira á næstunni.

Öllum fyrrverandi íþróttafréttamönnum er boðið í afmælisveisluna og vill Þorsteinn hvetja þá til þess að mæta með maka sína, en margir þjóðþekkir aðilar hófu fjölmiðlaferil sinn sem íþróttafréttamenn. Áhugasamir skulu senda póst á netfangið

thorsteinn.gunnarsson@365.is. Miðaverð fyrir fyrrverandi félaga er 2.400 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.