Lífið

Myndir, vatn og þögn

Bjargey Ólafsdóttir vinnur með Hörn Harðardóttur að hljóðinnsetningu um þrá kvenna eftir óskilgetnum börnum.
Bjargey Ólafsdóttir vinnur með Hörn Harðardóttur að hljóðinnsetningu um þrá kvenna eftir óskilgetnum börnum. MYND/Valli

Sérstök vídóverka- og gjörningakvöld verður haldin í Tjarnarbíói í tengslum við myndlistarhátíðina Sequences en í dagskráin þar hefst í dag kl. 17 þegar myndlistarkonurnar Bjargey Ólafsdóttir og Hörn Harðardóttir flytja þar hljóðinnsetningu þar sem umfjöllunarefnið eru óskir kvenna um óskilgetin börn.

Um kvöldið verða sýndar myndir frá 700 IS Reindeerland, alþjóðlegri stuttmyndahátíð sem haldin var á Austfjörðum í vor, en þangað bárust yfir þrjú hundruð myndir frá þrjátíu og fjórum löndum. Tuttugu myndir voru valdar til sýninga á Sequences og verður þeim varpað á Tjarnarbíótjaldið.

Að lokinni sýningu myndanna verður kynningarfundur á verkefni sem kennt er við Overtures 3 en þar er um að ræða samstarfsverkefni lista- og vísindamanna sem hverfist um vatn og notkun mannsins á þeirri náttúruauðlind. Þetta er nokkurs konar upphafsfundur en markmiðið með verkefninu er að setja upp sýningu og ráðstefnu í tengslum við EXPO heimssýninguna á Spáni árið 2008, útskýrir Christian Schoen, forstöðumaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar. Bæði íslenskir og erlendir myndlistarmenn munu taka þátt í verkefninu og verður hluti þeirra á staðnum til þess að kynna það. Lokaatriði kvöldsins er síðan uppákoma þýska tónlistarmannsins Kalle Laar sem stígur á stokk um níu leytið.

Kalle Laar er hluti af Overtures hópnum en hann hefur dvalið hér á landi undanfarna daga og safnað hljóðum. Hann sérhæfir sig í hljóð- og tónlistasöfnun en í verkum hans tvinnast þau saman, þar heyrast alls konar hljóð meira að segja ræður stjórnmálamanna, útskýrir Christian Schoen

Þess má geta að þeir sem ekki komast á viðburði Sequences hátíðarinnar en vilja samt sem áður taka þátt geta stillt útvarpstæki sín á tíðinina FM 106,5. Þar útvarpar myndlistarmaðurinn Finnbogi Pétursson þögn á meðan á hátíðinni stendur. Fólk kannast við það þegar maður stillir útvarpið og finnur enga rás þá heyrist samt sem áður eitthvað en Finnbogi mun útvarpa algerri þögn á sinni rás, segir Christian að lokum.

Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á heimasíðunni www.sequences.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.