Lífið

Sérfróðir ausa úr viskubrunnum

Handbragð og glæsileiki á Þjóðbúningasýningu Þjóðminjasafnsins.
Handbragð og glæsileiki á Þjóðbúningasýningu Þjóðminjasafnsins.

Þjóðminjasafnið hefur í vetur boðið upp á leiðsagnir sérfræðinga um fjölbreyttar sýningar safnsins. Sérfræðileiðsagnir Þjóðminjasafnsins hafa hlotið heitið Ausið úr viskubrunnum en kl. 12.10 í dag verður efnt til þeirrar þriðju því þá mun Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörður leiða gesti um sýninguna Með gullband um sig miðja í Forsalnum á annarri hæð. Táknmálstúlkur verður einnig á staðnum og tekur þátt í leiðsögninni.

Á sýningunni Með gullband um sig miðja eru íslenskir þjóðbúningar og dýrindis búningaskart frá lokum 17. aldar til okkar tíma. Vandað handbragð og glæsileiki einkenna gripina og sýna þeir svo ekki verður um villst að dverghagir menn og konur hafa stundað silfursmíði hér á landi. Þór mun einnig ganga með gestum um hluta grunnsýningarinnar og segja frá völdum gripum sem tengjast þjóðbúningunum. Þjóðbúningasýningin var gerð í samvinnu við þjóðbúningaráð og stendur til 19. nóvember.

Í Þjóðminjasafninu standa einnig yfir ljósmyndasýningarnar Ókunn sjónarhorn og Myndir úr lífi mínu. Hin fyrrnefnda geymir myndir af óþekktum stöðum, húsum og fólki úr Myndasafni Þjóðminjasafnsins sem ekki hefur tekist að bera kennsl á og eru gestir safnsins eru beðnir að gefa upplýsingar um myndefni þeirra. Siðarnefnda sýningin er helguð ljósmyndum Gunnlaugs P. Kristinssonar ljósmyndara á Akureyri og geymir skemmtilegar myndir út bæjarlífinu í höfuðstað Norðurlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.