Innlent

KLH rannsóknastofa öðlast faggildingu

Klínísk lífefnafræðistofa Holtasmára, eða KLH hefur tekið við vottorði frá SWEDAC, faggildingarstofnun Svíþjóðar, því til staðfestingar að algengustu mælingar KLH væru faggildar. KLH er fyrsta íslenska rannsóknastofa á heilbrigðissviði sem öðlast faggildingu.

Faggilding er staðfesting á því að rannsóknastofan uppfylli kröfur er varða tæki, húsnæði og hæfni starfsfólks og jafnframt að öflugt innra eftirlit í formi gæðakerfis sé til staðar eins og tilgreint er í staðlinum ISO 15189. Þannig á að vera tryggt að mælingar séu ávallt framkvæmdar af hæfum aðilum þar sem fagmennska er höfð í fyrirrúmi.

KLH ehf. er sérhönnuð rannsóknastofa sem hefur starfað í 38 ár við blóðmælingar í tengslum við rannsóknir Hjartaverndar og annast lífsýnasafn Hjartaverndar. Til ársloka 2004 var rannsóknastofan rekin sem sérstök rekstrareining innan Hjartaverndar en frá ársbyrjun 2005 sem einkahlutafélag. Rannsóknastofan er sérhönnuð og var m.a. útbúin með það að markmiði að geta tekist á við öll verkefni sem óskað var eftir í tengslum við Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (AGES Reykjavik Study). KLH vinnur einnig að öðrum rannsóknaverkefnum á vegum Hjartaverndar og tilteknum verkefnum í samvinnu við ýmsa aðila bæði innlenda og erlenda, þ.m.t. mælingar í klínískum lyfjarannsóknum.

Grunnur að starfsemi rannsóknastofunnar hefðbundnar klínískar lífefnarannsóknir á blóði, blóðvökva og þvagi, sem framkvæmdar hafa verið allt frá stofnun Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar 1967. Að auki hefur um árabil verið unnið að rannsóknum á DNA og athugaðir ýmsir erfðabreytileikar, einkum þeir sem tengjast hjarta- og æðasjúkdómum en fyrirséður er mikill vöxtur á því sviði. Einangrun hvítra blóðfruma í Öldrunarrannsókninni hefur einnig opnað möguleika á nýrri nálgun þeirra viðfangsefna sem unnið er að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×