Lífið

Öll dýrin í skóginum

Niðurstaða: Vönduð og vel gerð teiknimynd þar sem skemmtileg skógardýr halda fjörinu gangandi. Skemmtilegir leikarar hafa sitt að segja og eiga drjúgan þátt í að gera Over the Hedge að fyrirtaks fjölskylduskemmtun.
Niðurstaða: Vönduð og vel gerð teiknimynd þar sem skemmtileg skógardýr halda fjörinu gangandi. Skemmtilegir leikarar hafa sitt að segja og eiga drjúgan þátt í að gera Over the Hedge að fyrirtaks fjölskylduskemmtun.

RJ er tækifærissinnaður og eigingjarn þvottabjörn sem kemst í hann krappann eftir að hann klúðrar ráni á matarbirgðum geðstirðs bjarndýrs. Góssið skemmist þegar bangsi grípur meistaraþjófinn glóðvolgan og RJ er gefin vika til þess að hamstra saman nýjum lager eða gjalda annars með lífi sínu.

RJ getur þetta ekki einn og vélar því hóp af nývöknuðum skógardýrum til þess að herja með sér á mannheima, handan við stóra limgerðið sem skilur nú að villta náttúruna og malbikaðan undraheim mannfólksins þar sem nægan mat er að finna.

Dýrin ganga vasklega fram í söfnuninni og koma því illilega við kauninn á mannskepnunum sem bregða á það ráð að leysa þessa milliríkjadeilu með því að kalla til skæðan meindýraeyði til þess að útrýma innrásarliðinu.

Allir þessir árekstrar; uppgjör bjarndýrs og þvottabjarnar, koma einfarans og ævintýradýrsins inn í einfalt og samheldið samfélag skógardýranna og svo auðvitað átök dýraríkis og mannheima bjóða upp á mikið fjör og spennu þannig að það er ekki dauður punktur í Over The Hedge. Þar fyrir utan er myndin listavel gerð og tölvutæknin gæðir skrautlegar persónurnar lífi sem sækja svo enn meiri kraft til fínna leikara sem margir hverjir fara á kostum. Bruce Willis fer létt með að túlka hinn upplitsdjarfa RJ og rám viskírödd veðruðu fyllibyttunnar Nick Nolte fer birninum grimma ákaflega vel.

Over the Hedge sver sig í ætt við aðrar fyrsta flokks tölvuteiknimyndir. Hún er áferðarfögur, litrík og lifandi. Sagan er einföld og ristir ekki djúpt frekar en fyrri daginn enda kveða við sömu stef og venjulega í myndum af þessu tagi og gildi samvinnu og vináttu eru áréttuð með stöðluðum aðferðum. Fjörið og fíflagangurinn yfirgnæfir þetta svo allt saman en hasarinn og skemmtunin er vitaskuld það sem markhópurinn sækist eftir og þar skilar Over the Hedge sínu með sóma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×