Lífið

Systur og sandpappír

Systurnar sjö og glitrandi vörubretti Franski listamaðurinn Serge Comte sýnir í 101 galleríi.
Systurnar sjö og glitrandi vörubretti Franski listamaðurinn Serge Comte sýnir í 101 galleríi. MYND/Vilhelm

Franski myndlistarmaðurinn Serge Comte opnaði sýningu í gærdag í 101 gallerí. Þar kenndi ýmissa grasa en meginverk sýningarinnar eru flutningabretti sem skreytt hafa verið með glimmeri í ýmsum litum.

"Ég fékk hugmyndina þegar ég var á göngu að vetri til við höfnina í Reykjavík og rak augun í bretti sem glitraði svo fallega vegna frostrósa sem myndast höfðu á því. Síðar tók ég að safna flutningabrettum í hverfinu mínu af mismunandi stærðum." Serge segist áður hafa haldið sýningu á brettum í Frakklandi en þá var hugmyndin að baki verkunum önnur. "Nú ákvað ég að persónugera þau eins og manneskjur sem eru að bíða eftir einhverju, en vita ekki hverju. Þau eru dálítið einmanaleg í bið sinni og því ákvað ég að gefa þeim andlitslyftingu og lyfta þeim þannig upp." Verkið kallast "Sjö systur" með vísun í stjörnunar sjö á himnafestingunni og goðsögnina sem þeim fylgir.

Hitt verkið á sýningunni byggir á 20 stykkjum af A4 stærð af sandpappír, sem Serge hefur prentað á andlitsmyndir, af konum sem eru munnlausar. "Verkið heitir "Hinar hljóðu," en ég tók myndir af erótískum vefsíðum sem sýna konur og setti á sandpappírinn. Hugmyndin að baki bæði þessu verki og brettaverkinu snýr að því sem er yfirgefið á einhvern hátt, skilið eftir og ekki hefur verið hugsað um. Þegar ég var til dæmis að setja andlitsmyndirnar af munnlausu konunum á sandpappírinn, þá var eins og ég væri að setja þær í jihad-búning, með hulu fyrir munninn. Þannig fór ég að hugsa um þær öfgar sem eru ráðandi annars vegar á Vesturlöndum og hins vegar Austurlöndum. Konan er berstrípuð án blygðunar í okkar heimi en fullkomlega hulin í Austurlöndum. Þá eru brettin eins og konurnar á erótísku vefsíðunum nafnlaus." Að sögn Serge eru þetta helstu viðfangsefni sýningarinnar sem var opnuð í gær.

Sýningin í 101 galleríi stendur til 2. september og er opin frá þriðjudegi til laugardags, frá 14-18.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×