Lífið

Ítölsk innrás í Mosfellsbæ

Daði Þór Einarsson mundar sprotann. Samspil Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar og Corpo Bandistico á Ítalíu.
Daði Þór Einarsson mundar sprotann. Samspil Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar og Corpo Bandistico á Ítalíu.

Um þessar mundir dvelja 70 Ítalir inni á íslenskum heimilum í Mosfellsbæ. Allir þessir Ítalir eru tónlistamenn enda er um heila lúðrasveit að ræða.

För Ítalinna er partur af vinasambandi Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar og Corpo Bandistico.

Aðdragandinn var sá að haft var samband frá Corpo Bandistico, sem er tónlistaskóli í bænum Monzuno í grennd við Bolognia, segir Birgir D. Sveinsson deildarstjóra skólahljómsveitar Mosfellsbæjar. Við erum búin að vera í tengslum við þau undanfarið ár að undirbúa gagnkvæma heimsókn, sem nú er orðin að veruleika.

Fyrr í sumar fór 45 manna hópur skólahljómsveitar Mosfellsbæjar út til Ítalíu og naut þar gestrisni meðlima Corpo Bandistico í viku. Krökkunum var boðið í heimahús og fengu þeir að kynnast ítölsku heimilislífi frá fyrstu hendi. Eins og lög gera ráð fyrir var heilmikið spilað. Að sögn Daða Þórs Einarsson stjórnanda var hápunkturinn sameiginlegir lokatónleikar Mosfellinga og Corpo Bandistico sem fram fóru í 1.000 metra hæð, en auk þess að kynna íslenska tónlist las Margrét Ponzi upp íslensk ljóð bæði á íslensku og ítölsku við góðar undirtektir innfæddra. Að tónleikunum loknum var svo haldið til Rimini þar sem hópurinn slappaði af í viku auk þess að fara í fjölmargar skoðunaferðir.

Nú eru Ítalirnir komnir hingað til lands að smakka slátur og sviðakjamma á íslenskum heimilum. Dagskrá þeirra er fjölbreytt en þeir fræðast meðal annars um íslenska hestinn, skoða Mosfellssveitina og Þingvelli, fara í hvalaskoðun, heimsækja Þjóðminjasafnið og öllum er að sjálfsögðu dýft ofaní Bláa Lónið.

Á morgun laugardag kl. 17 halda Corpo Bandistico tónleika í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis. Þriðjudaginn 18. júlí verða svo sameiginlegir lokatónleikar í Gagnfræðaskólanum í Mosfellsbæ kl. 20. Við hvetjum alla, sérstaklega Mosfellinga, til að mæta og sjá Ítalina leika listir sínar, en þeir kunna sitt hvað fleira fyrir sér en að spila fótbolta, segir Daði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×