Innlent

Illur hugur

Jón Ásgeir Jóhannesson er sannfærður um að illur hugur búi að baki nýrri skattrannsókn á hendur honum. Meint skattalagabrot hans nema sextíu og sex milljónum króna. Jón Ásgeir segist ætla að fara yfir það með lögfræðingi sínum hvort hann mæti í boðaða yfirheyrslu til ríkislögreglustjóra eftir viku.

Jón Ásgeir fékk í fyrradag boð um að koma í yfirheyrslu hjá embætti ríkislögreglustjóra vegna meintra skattalagabrota. Skattrannsóknarstjóri sendi ríkislögreglustjóra gögn málsins í nóvember 2004, þannig að embættið hefur haft þau undir höndum í nítján mánuði til skoðunar.

Í viðtali við NFS í gær sagði Jón Snorrason yfirmaður efnahagsbrotadeildar að það væri alls ekki óeðlilegt að rannsóknin hefði tekið þennan tíma með hliðsjón af umfangi hennar. Málið snýst um sextíu og sex milljónir. Jón Ásgeir segir að það sé sú upphæð sem tekist sé á um.

Gestur Jónsson, verjandi hans segir að verið sé að brjóta landslög með því að klára ekki öll opniber mál á hendur Jóni Ásgeiri á sama tíma. Sjálfur hefur Jón Ásgeir fleira við boðun ríkislögreglustjóra að athuga. Hann segir það skrýtið að menn úr embætti ríkislögreglustjóra sem hafi talist vanhæfir til að halda áfram með málið eftir að 32 liðum þess var vísað frá, skuli nú aftur komnir inn í málið.

Yfirmaður efnahagsbrotadeildar skýrir það með því að hér sé um nýtt mál að ræða og því sé eðlilegt að það fari venjulegan farveg í gegnum embætti ríkislögreglustjóra

Jón Ásgeir talar um einelti og segist sannfærður um að yfirheyrslur vegna meintra skattalagabrota, eins og raunar baugsrannsóknin öll séu tilkomnar af illgirni. Hann segist viss um að illur hugur búi þarna að baki, það sýni allur aðdragandi málsins. Hann segist ætla að fara yfir það með lögfræðingi sínum hvort hann muni mæta í yfirheyrslurnar hjá ríkislögreglustjóra eftir viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×