Innlent

Kröfum Péturs Þórs hafnað

Pétur Þór 
Gunnarsson
Pétur Þór Gunnarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær íslenska ríkið af skaðabótakröfum Péturs Þórs Gunnarssonar.

Pétur krafðist þess að honum yrðu greiddar tæpar 4 milljónir í skaða- og miskabætur vegna synjunar Fangelsismálastofnunar um reynslulausn úr fangelsi í júlí árið 2000. Þá hafði hann afplánað helming af sex mánaða fangelsisdómi vegna fjársvika og skjalafals.

Synjunin var gerð á þeim forsendum að á sama tíma stóð yfir rannsókn hjá embætti Ríkislögreglustjóra á meintum málverkafölsunum Péturs. Á grundvelli þeirrar rannsóknar var Pétur kærður árið 2003 og sýknaður í Hæstarétti rúmu ári síðar.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að heimilt sé að veita föngum reynslulausn, en það sé undantekning. Þá er einnig ákvæði sem segir að mönnum sé ekki veitt slík reynslulausn, sé ólokið öðru máli þar sem viðkomandi er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.

Taldi Pétur að það ákvæði stangaðist á við stjórnarskrá sem og mannréttindasáttmála Evrópu þar sem fram kemur að hver sá sem borinn er sökum, skuli talinn saklaus, uns sekt er sönnuð.

Dómurinn fellst ekki á að í ákvæðinu felist, að fangelsisyfirvöldum sé gert að meta sekt viðkomandi eða sýknu í málum þeim sem kunni að vera ólokið.

Þá segir að ekki verði séð að slíku mati hafi verið beitt við afgreiðslu umsóknar Péturs um reynslulausn.

Því var ríkið sýknað af öllum kröfum en málskostnaður fellur niður. Ekki náðist í Pétur vegna dómsins í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×