Innlent

Úrskurðurinn áfall að mati borgarstjóra

Framtíð í uppnámi Hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag svæðisins braut í bága við lög. Borgarráð fundar um málið í vikunni.
Framtíð í uppnámi Hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag svæðisins braut í bága við lög. Borgarráð fundar um málið í vikunni.

Útboðsskilmálar sem Reykjavíkurborg setti vegna útboðsins um framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar hafa verið ógildir þar sem kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að tilhögun útboðsins bryti í bága við lög um opinber innkaup.

Kæra barst frá Félagi sjálfstætt starfandi arkitekta fyrir hönd nokkurra arkitektastofa vegna framkvæmdarinnar í maí en nú hefur nefndin úrskurðað þeim í vil, ógilt útboðsskilmálana og gert Reykjavíkurborg að greiða félaginu 400 þúsund krónur í málskostnað.

Félag sjálfstætt starfandi arkitekta gerði athugasemd við skipulag útboðsins þar sem þátttakendur gætu annars vegar tekið þátt í hugmyndasamkeppni um fram­tíðarskipulag svæðisins undir nafnleynd en einnig tekið þátt í forvali með skipulagstillögur sem uppfylltu sömu kröfur og samkeppnistillögurnar.

Nýkjörinn borgarstjóri Reykjavíkur, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lýsti því yfir að úrskurðurinn væri ákveðið áfall fyrir borgina og sagði að málið yrði tekið til rækilegrar skoðunar. "Við munum fara yfir þetta mál í borgarráði næstkomandi fimmtudag og ég mun óska eftir lögfræðilegri álitsgerð um málið sem ef til vill verður komin fyrir þann tíma."

Kvaðst Vilhjálmur ekki geta lagt nokkuð mat á það að svo stöddu hvort halda þyrfti nýja keppni eða endurskipuleggja keppnina frá grunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×