Innlent

Kríuvarp misferst annað árið í röð

Magnús Jónsson frá Flatey Magnús hafði áður áhyggjur af því að kríuvarpið yrði senn komið upp að húsi hjá sér en nú hefur henni fækkað svo að hann heyrir varla í henni.
Magnús Jónsson frá Flatey Magnús hafði áður áhyggjur af því að kríuvarpið yrði senn komið upp að húsi hjá sér en nú hefur henni fækkað svo að hann heyrir varla í henni. MYND/Hörður

Kríuvarp, sem stundum hefur hafist um miðjan maí eða að minnsta kosti í júníbyrjun, er enn varla hafið á Suður- og Vesturlandi að sögn Kristins Hauks Skarphéðinssonar fuglafræðings.

Undir þetta tekur Magnús Jónsson íbúi í Flatey. "Í fyrra komust örfáir kríuungar upp en svo drápust þeir flestir úr ætisleysi," segir Magnús. "Útlitið er mjög svipað nú. Fuglafræðingur sem er hérna á ferðinni hefur aðeins séð örfá kríuegg en þetta ætti allt að vera komið á fullt á þessum tíma. Einnig hefur kríunni stórfækkað. Fyrir nokkrum árum hélt ég að kríuvarpið kæmi upp að húsi hjá okkur en nú er það varla að maður heyri í henni."

Kristinn Haukur segir að hugsanlega sé um að kenna skorti á síli sem gerir það að verkum að fuglinn hafi ekki æti nálægt varpstöðvum. Auk kríunnar hefur þetta ástand alvarlegar afleiðingar fyrir ritu, lunda og fjölda annarra fuglategunda. Hann segir þó að þessir fuglar hverfi varla af landinu en vissulega sé útlit fyrir verulega fækkun ef þetta ástand haldi áfram. "Það er þó enn möguleiki að krían nái að verpa þó vissulega sé þetta orðið nokkuð seint," segir hann.

Magnús segir að í fyrstu eggjatökum hafi hann oft tekið um 1500 rituegg en að þessu sinni aðeins um 100 þar sem svo lítið hafi verið af þeim. "Svo erum við alveg hættir að sjá fuglinn stinga sér í torfur líkt og við sáum svo oft fyrir nokkrum árum," segir hann.

Síðasta sumar lýstu hrefnuveiðimenn áhyggjum sínum vegna þess að holdafar hrefnunnar benti til þess að ekki væri nóg æti fyrir hana á miðum og kenna þeir sílisskorti um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×