Innlent

Kríuna skortir æti

Krían Varp kríunnar hefur verið lítið tvö ár í röð.
Krían Varp kríunnar hefur verið lítið tvö ár í röð.

Krían hefur ekki enn hafið varp sunnan- og vestanlands en það er venjulega hafið á þessum tíma árs. Austanlands hefur þó eitthvað verið um varp, að sögn Kristins Skarphéðinssonar, fuglafræðings hjá Náttúrufræði­stofnun.

Hann segir skýringuna vera þá að kríuna skorti æti en hún nærist einkum á sandsíli sem hún veiðir upp úr sjónum. "Það er alveg greinilegt að aðrir fuglar sem lifa á svipaðri fæðu, eins og sílamávur til dæmis, eru líka mjög seinir. Það er slæmt útlit, þó að það gæti ræst úr á næstu tveim vikum," segir Kristinn.

Að sögn Kristins hefur veðrið ekkert að segja um lítið varp kríunnar heldur er eingöngu um að ræða skort á sandsíli. Erfitt er að finna skýringuna á af hverju það bregst en í fyrra misfórst varp af sömu sökum.

Kristinn segir að skortur á sílum geti haft áhrif á stofninn ef hann verður langvarandi og bendir meðal annars á dæmi frá Norður-Noregi þar sem lundinn hafi nánast horfið en hann lifir á sams konar sílum.

Það jákvæða í þessu er þó að þar sem krían verpir ekki þarf fólk ekki að óttast um að verða fyrir árásum hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×