Innlent

Sex dauðaslys vegna ölvunar

Ágúst mogensen
Ágúst mogensen

Nítján manns létust í sextán umferðarslysum hérlendis á seinasta ári. Hlutust sex þeirra af ölvunarakstri, þar af tvö sem stöfuðu af samspili áfengis og fíkniefna. Í að minnsta kosti tveimur tilvikum hefði það getað haft áhrif ef lögreglu hefði verið tilkynnt um ölvunaraksturinn.

Af þessu tilefni vill Rannsóknarnefnd umferðarslysa hvetja fólk til þess að láta lögreglu vita ef það veit til þess að einhver undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna ætli sér að aka bifreið. Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar fyrir árið 2005.

"Ég held að meginástæðan fyrir að fólk láti ekki vita af þessu sé að það vilji ekki koma vinum sínum og ættingjum í klandur, en það voru að minnsta kosti tvö slys þar sem mátti lesa klárlega úr gögnum málsins að nærstaddir aðilar hefðu getað tilkynnt lögreglu." sagði Ágúst Mogensen, forstöðumaður nefndarinnar.

Á Alþingi liggur fyrir frumvarp sem segir að ef ólögleg ávana- eða fíkniefni mælist í blóði eða þvagi ökumanns þá teljist hann óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Rannsóknarnefndin álítur þessa breytingu nauðsynlega. Eyða þurfi óvissu um akstur undir áhrifum ólöglegra lyfja og taka hann föstum tökum líkt og ölvunarakstur. Telur nefndin heppilegast að setja núllmörk í þessu efni þar sem akstur krefjist fullkominnar athygli og engin ástæða sé til að leyfa hann undir áhrifum ólöglegra fíkniefna, sama hve lítill skammturinn sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×