Innlent

Helmingur rekinn án leyfis

Tjaldsvæðið í laugardal Eitt þeirra 68 tjaldsvæða landsins sem hafa starfsleyfi.
Tjaldsvæðið í laugardal Eitt þeirra 68 tjaldsvæða landsins sem hafa starfsleyfi. MYND/heiða

Elías Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálastofu, telur um 150 tjaldsvæði starfrækt í landinu en einungis 68 þeirra hafi tilskilinn leyfi. Hann segir það í verkahring heilbrigðiseftirlits viðkomandi landsvæða að úthluta leyfum. "Það virðist vera hægt að reka tjaldsvæði hér á landi án leyfa þó að þeirra sé krafist," segir Elías. "Við erum með einn fjölsóttasta vefinn yfir tjaldsvæði landsins og hafi tjaldsvæði ekki starfsleyfi fær það ekki inni hjá okkur, því ætti hvatinn að vera að verða sér úti um leyfi."

Íslensk tjaldsvæði eru flokkuð eftir viðmiðum sem Ferðamálastofa hefur sett. Á heimasíðu Ferðamálastofu er að finna flokkunarkerfið en tjaldsvæðum landsins eru gefnar stjörnur eftir aðstöðunni og þjónustunni sem þar er í boði, mest getur svæði hlotið fimm stjörnur og minnst eina.

Eigendum tjaldsvæða er í sjálfsvald sett hvort þeir kjósa að láta meta svæðið og hefur Ferðamálastofa í dag metið þrjátíu af þeim 68 sem hafa starfsleyfi. Tvö tjaldsvæði hafa hlotið hæstu einkunn, tjaldsvæðið Fossatúni í Borgarfirði og tjaldsvæðið Heiðar­bær við Húsavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×