Innlent

Aðeins Engeyin var úti

Í höfn Langflest skip voru í höfn á sjómannadaginn enda er það lögbundinn frídagur sjómanna. Myndin er tekin í Reykjavíkurhöfn í gær.
Í höfn Langflest skip voru í höfn á sjómannadaginn enda er það lögbundinn frídagur sjómanna. Myndin er tekin í Reykjavíkurhöfn í gær. MYND/vilhelm

Langflest skip voru stödd í höfn á sjómannadaginn eins og lög gera ráð fyrir. Alls voru 44 skip skráð á sjó um miðjan dag í gær en aðeins eitt þeirra var fiskiskip af stærri gerðinni, Engey RE í eigu HB Granda. Öll skip eiga að vera í höfn nema þau sem afferma erlendis. Hinir eru líklega einyrkjar sem ráða sér sjálfir og eru á guðs og eigin vegum, segir Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannadagsráðs, og rifjar upp aðdraganda þess að bundið var í lög að öll skip skyldu vera í höfn á þessum degi.

Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn 1938. Fyrst var þetta bara samkomulag meðal útgerðarmanna og sjómanna að skipin væru í landi en þá voru vertíðarlok 11. maí og veiðin úr hafinu kaflaskipt. Síðan kom kvótinn og þá fór þetta að breytast og bar á því að skip voru að láta úr höfn einum til tveimur sólarhringum fyrir sjómannadag, segir Guðmundur en árið 1987 voru sett lög um að skip skyldu vera í höfn. Fyrst vildu útgerðir ekki una þessu en ári síðar voru lögin farin að virka, segir Guðmundur og lýsir því stoltur að ekki sé vitað til þess að sjómannadagur sé lögbundinn neins staðar nema á Íslandi. Hann bendir á að í ár hafi nokkrir færeyskir sjómenn tekið þátt í hátíðahöldunum til að kynna sér daginn með það í huga að taka siðinn upp í Færeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×