Innlent

Engar nýjar spólur leigðar út

DVD-diskar Gömlu VHS-myndbandsspólurnar hafa orðið undir í tæknikapphlaupinu og skipa DVD-diskar nú þeirra fyrri sess.
DVD-diskar Gömlu VHS-myndbandsspólurnar hafa orðið undir í tæknikapphlaupinu og skipa DVD-diskar nú þeirra fyrri sess. MYND/Stefán

Glöggir gestir myndbandaleiga landsins hafa líklega tekið eftir því að nýjustu myndirnar á leigunum eru ekki gefnar út á gömlu VHS-myndbandsspólunum lengur eins og verið hefur, heldur eingöngu á DVD-mynddiskum. Ennþá verður hægt að fá gömlu myndirnar á spólum, þó að maður þurfi DVD-spilara til að horfa á þær nýju.

"Þetta er bara þróunin," segir Stefán Unnarsson, framkvæmdastjóri Myndmarks, samtaka myndbandaleiga og útgefenda. "níutíu prósent útleigunnar voru orðin DVD-diskar, svo menn biðu eins lengi með þessa breytingu og hægt var. Útgefendur voru misfljótir að hætta þessu." Stefán segir vera eftirsjá af spólunum, því þær hafi að mörgu leyti verið betri til útláns.

Arthur Moon hjá söludeild hljómtækja hjá Bræðrunum Ormsson telur myndbandstækin víkja stöðugt fyrir DVD-spilurunum. "Menn hafa verið að kaupa sambyggðu tækin, með DVD- og myndbandstæki, til að geta spilað gömlu spólurnar sínar," segir Arthur. "Ég gæti trúað því að áttatíu prósent heimila eigi DVD-spilara."

Tímarit Myndmarks sem áður hét "Myndbönd mánaðarins" heitir nú "Myndir mánaðarins." Ekki eru þó uppi samræmd áform um að skipta út orðinu "myndbandaleiga" fyrir "diskaleiga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×