Innlent

Segir uppsagnirnar ofsóknir

Ólafsvík Oddviti J-lista kallar uppsagnirnar illa undirbúna hefndaraðgerð.
Ólafsvík Oddviti J-lista kallar uppsagnirnar illa undirbúna hefndaraðgerð.

Öllum starfsmönnum sundlaugar og íþróttahúss á Ólafsvík, sex talsins, var sagt upp störfum af bæjarstjóra Snæfellsbæjar, Kristni Jónassyni, í byrjun mánaðar. Oddviti minnihlutans í bænum kallar uppsagnirnar pólitískar ofsóknir.

"Bæjarstjórinn rauk til strax eftir kosningar og rak þetta fólk án þess að ræða það við bæjarráð eða bæjarstjórn eins og honum ber skylda til. Hann sagði ástæðuna vera skipulagsbreytingar, sem er mjög ódýr skýring auk þess sem það er ólöglegt að segja fólki upp vegna skipulagsbreytinga," segir Gunnar Örn Gunnarsson, oddviti J-lista, en Sjálfstæðisflokkur hélt meirihluta sínum í bænum.

"Þetta er fólk sem hann er búinn að vera að stríða við í vetur og er meðal fárra sem þorðu að birta mynd af sér sem stuðningsaðilar við hitt framboðið. Í mínum huga eru þetta bara pólitískar ofsóknir og illa undirbúin hefndaraðgerð sem ekki er hægt að komast upp með." Minnihlutinn mun leggja það til á bæjarstjórnarfundi á fimmtudag að uppsagnirnar verði afturkallaðar og fólkið beðið afsökunar.

Kristinn Jónasson bæjarstjóri segir að alltaf megi deila um það hvort löglegt sé að segja fólki upp vegna skipulagsbreytinga.

"Við þurfum að endurskipuleggja starfsemina vegna þess að við höfum haft opið á Hellissandi líka. Starfsmennirnir neituðu að taka að sér vaktir þar og á eftir samningaleiðinni er þetta leið númer tvö." Kristinn sagðist jafnframt alltaf hafa ráðið og sagt upp fólki án þess að bæjarráð kæmi þar nærri, þrátt fyrir að það væri strangt til tekið bannað.-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×