Innlent

Dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl

Mynd/GVA

Karlmaður á sextugsaldri var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Maðurinn reyndi að smygla tæpu kílói af amfetamíni og um 3,8 kílóum af kannabis til landsins í bíl með Norrænu í desember síðastliðnum.

Bíllinn var fluttur af öðrum manni til landsins og áfram til Hafnarfjarðar. Þar faldi maðurinn bílinn í iðnaðarhúsnæði og fjarlægði fíkniefnin sem voru falin í drifskafti sem fest hafði verið við bílinn. Lögreglan fann efnin við leit tveimur dögum síðar. Maðurinn játaði að hafa annast innflutninginn, bæði fyrir lögreglu og dómi, en ýmislegt annað í framburði hans þótti ótrúverðugt.

Maðurinn var eins og áður segir dæmdur í tveggja ára fangelsi en sjö daga gæsluvarðhaldsúrskurður kemur til frádráttar refsingunni. Honum var auk þess gert að greiða rúma milljón króna í sakarkostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×