Innlent

Dæling úr Wilson Muuga gengur vel

Dæling á olíu hófst úr flutningaskipinu Wilson Muuga á strandstað við Hvalsnes á Reykjanesi um fjögurleytið í nótt og gengur nokkuð vel. Til stóð að hefja dælingu síðdegis í gær en vegna tæknilegra erfiðleika tókst það ekki og lítilræði af olíu lak í sjóinn. Betur gekk undir morgun þegar aftur var reynt, og er olíunni dælt í olíubíl í fjörunni.

Vonir stóðu til í morgun að bíllinn fylltist nú í hádeginu, en hann tekur 16 tonn. Alls voru 120 tonn af svartolíu í skipinu þegar það strandaði , þar af 70 tonn í botngeymum og 60 tonn í síðugeymum, og er verið að dæla úr þeim. Hluti olíunnar úr botngeymunum er kominn upp í lestina vegna þrýstings sjávar um rifur á botntönkunum, og eitthvað hefur lekið úr þeim tönkum í sjóinn. Seinni hálfleikur dælingarinnar verður því líklega erfiðari og ekki er hægt að segja til um verklok.

Olían verður flutt í birgðastöð Olíudreifingar í Örfirisey og sett þar á geyma með úrgangsolíu. Átta menn eru um borð í skipinu og álíka margir í fjörunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×