Innlent

Geir víðförlasti ráðherrann

Þrír nýir ráðherrar munu taka sæti í ríkisstjórn á morgun. Jón Sigurðsson fer í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Jónína Bjartmarz í umhverfisráðuneytið og Magnús Stefánsson í félagsmálaráðuneytið. Þá mun Geir H. Haarde færa sig úr utanríkisráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið og Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tekur hans sæti í utanríkisráðuneytinu.

Eftir ráðherraskiptin munu 25 manns, sex konur og nítján karlar, hafa gegnt starfi ráðherra frá því að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hófu ríkisstjórnarsamstarf árið 1995. Af þeim eru þrettán framsóknarmenn og tólf sjálfstæðismenn. Þeir munu samanlagt hafa setið á 39 ráðherrastólum og þá mun hafa verið skipt 29 sinnum um ráðherra á tímabilinu.

Flestir munu hafa gegnt starfi umhverfisráðherra, fimm manns, þar af Halldór Ásgrímsson í 18 daga. Fjórir munu hafa verið utanríkisráðherrar, félagsmálaráðherrar, dóms- og kirkjumálaráðherrar og sjávarútvegsráðherrar, en tveimur síðastnefndu embættunum gegndi Davíð Oddsson í 18 daga. Minnstar umhleypingar hafa verið í samgönguráðuneytinu en Sturla Böðvarsson tók við ráðherraembættinu árið 1999 og hefur gegnt starfinu síðan.

Af þeim 29 breytingum á ráðherraskipan sem gerðar hafa verið frá árinu 1995 var einungis ein gerð á fyrsta kjörtímabilinu, þegar Friðrik Sophusson vék úr stöðu fjármálaráðherra. Hins vegar hafa verið gerðar fjórtán breytingar á ráðherraskipan eftir skipun í embættin að loknum kosningum árið 2003.

Víðförlasti ráðherrann á tímabilinu, ef frá eru taldir átján dagar Davíðs og Halldórs í maí 1999, er Geir H. Haarde sem gegnt hefur starfi fjármála-, utanríkis- og nú næst forsætisráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×