Innlent

Safnar sorpi í kjallaraíbúð

Rottugangur og flær hrjá nágranna konu við Hverfisgötu sem er aftur byrjuð að safna rusli í kjallaraíbúð sína eftir fimm ára hlé. Konan var borin út fyrir fimm árum vegna subbuskapar. Hún neitar að flytja úr húsinu eða bæta umgengina. Nágrannarnir geta hvergi leitað réttar síns. Þeir geta aðeins skorað á hana skriflega að bæta umgengnina. "Subbuskapurinn í kjallaranum veldur bæði verðrýrnun og skemmdum á hinum íbúðunum," segir Sæunn Hrund Björnsdóttir íbúi á Hverfisgötu 68a en hún og íbúar hússins hafa staðið í ströngu vegna kjallaraíbúðar sem er öll í rusli og mengar frá sér. Umrætt hús komst í fréttirnar fyrir fimm árum en þá ákváðu þáverandi íbúar hússins að kæra konuna í kjallaranum fyrir sóðaskap og kröfðust umbóta svo líft yrði í húsinu. Íbúðin reyndist full af sorpi sem konan hafði sankað að sér, meðal annars úr ruslatunnum úr nágrenninu. Konan var flutt burt úr íbúðinni af lögreglu og síðan mokaði hreinsunardeild í eiturefnabúningum ruslinu úr íbúðinni. Ólýsanleg sjón blasti við mönnunum; stórar og feitar kóngulær voru um alla íbúð og baðherbergið var kringlótt af kóngulóarvef. Þá þurfti þrjá 20 feta gáma til að koma öllu sorpinu á brott. Svo virtist sem konan sjálf hafi sofið ofan á sorphrúgunum um nætur ásamt ketti sínum. Nágrannarnir voru að vonum ánægðir að gripið hafði verið til aðgerða en sögðust þó óttast að hún myndi koma aftur og byrja að sanka að sér sorpi. Sá ótti reyndist á rökum reistur, því konan er byrjuð að sanka að sér rusli á ný. Nánar er fjallað um málið í DV í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×