Lífið

Trúin falleg og strákarnir líka

Hún býr í landinu helga. Ákvað að söðla um og gerast au pair á framandi slóðum síðastliðið vor. Var valin til að gæta tveggja barna Jónínu Guðrúnar Árnadóttur og ísraelsks eiginmanns hennar í Shoham, úthverfi Tel Aviv, en Jónína kynntist mannsefni sínu þegar bæði unnu á samyrkjubúi í Ísrael. "Þetta er ósköp venjuleg fjölskylda; Jónína vinnur hjá hátæknifyrirtæki en maður hennar hjá öryggisþjónustu, en krakkarnir eru fjögurra ára stelpa og átta ára strákur. Þau töluðu nánast enga íslensku þegar ég kom út en mér hefur tekist að kenna þeim nær lýtalausa íslensku," segir au pair-stúlkan Sigrún Sæmundsdóttir sem leggur stund á hebreskunám meðfram húsmóðurstarfinu í Shoham. Sigrún segir öryggisgæslu og vopnaburð gífurlegan í landinu; jafnvel inni á leikskólum. "Shoham-hverfið er læst á kvöldin og þannig eru vopnaðir verðir um alla borg. Maður skýst ekki út í búð án þess að skoðað sé í töskuna manns. Ég hef lært að Ísland er paradís þótt við séum óttalegir trúleysingjar, því við þurfum ekki að hafa áhyggjur af neinu. Íslensk ungmenni eru frjáls, meðan hér þurfa bæði kynin að gegna þriggja ára herþjónustu og ganga um með þungar vélbyssur; vopnuð frá toppi til táar. Það kom þó á óvart að lífið hér er ekki eins og maður sér í sjónvarpsfréttunum heima. Átökin eru bundin við mjög afmarkað svæði og engan veginn daglegt brauð meðal íbúa Ísraels." Sigrún segir Ísraelsmenn fallegt fólk. Hún hefur haft í nógu að snúast síðan hún fór utan fyrir tæpum átta mánuðum. "Ég var í sjokki fyrst yfir áhuga gyðingastrákanna; ekki síst þar sem ég er dökkhærð. Ég sker mig úr hópnum og þyki sjálfstæðari og þroskaðri en ísraelskar jafnöldrur mínar. Ég hef farið á mörg stefnumót og þeir hafa uppi verulega hallærislegar pick-up-línur þótt þeir séu upp til hópa yndislegar manneskjur. Það er erfiðara að kynnast ísraelsku kvenfólki en þær öfundast yfir athyglinni sem ég fæ og spá rosalega í útlitið enda fer þriðja hver í brjósta- og nefaðgerð. Þær eru súper grannar; mjög fallegar, en geta verið svolitlar tíkur í sér. Annars eru Ísraelsmenn mikið tískufólk og alltaf í ræktinni. Tel Aviv er strandborg og þar er unga fólkið á línuskautum og sýnir líkamana íklætt bikiníum og sundskýlum." Ísrael er fæðingarland Jesú Krists og hefur Sigrún aðeins ferðast um hans slóðir; þar sem öruggt þykir að fara. "Ég varð mjög snortin að fara til Jerúsalem og Nasaret. Þetta er svo heilagt og skrýtið að fólk geti verið í stríði þarna. Ég bý hjá gyðingum og þetta er gyðingaland. Skammast mín oft fyrir að vera trúleysingi því trú gyðinga er svo falleg. Heima fer maður í kirkju, sér frelsarann blóðugan á krossinum og fer að hugsa um dauðann. Ég gæti því vel hugsað mér að skipta um trú og búa í landinu helga til frambúðar, þótt ég sé rétt að byrja að skoða heiminn og ferðast sem au pair," segir Sigrún glaðlega; spennt að fara utan aftur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.