Innlent

Aðgerðum hætt við Slippstöðina

Starfsmenn Slippstöðvarinnar Akureyri ákváðu um sexleytið í gær að hætta aðgerðum eftir dramatískan fund með stjórnarformanni fyrirtækisins og lögfræðingi hans. "Við féllumst á að hætta aðgerðum á þeim forsendum að okkur þótti sýnt að við myndum ekki ná fram þessum launakröfum okkar," segir Þorsteinn Haraldsson trúnaðarmaður starfsmannanna. Starfsmennirnir höfðu átt von á því að fá laun sín greidd af fjármagni sem var að koma inn í fyrirtækið, en á fundinum var þeim sagt að Landsbankinn hefði átt veð í þessum peningum og hefði fryst launagreiðslurnar. Ekkert hafði verið rætt við starfsmennina þegar kom á daginn að launin yrðu ekki greidd út. Í kjölfar þess gripu þeir til mótmælaaðgerða og komu í veg fyrir að flutningabíll frá Landsvirkjun kæmist af athafnasvæði Slippstöðvarinnar. "Við þurftum aðgerðir til að fá menn til að funda," segir Þorsteinn. Hann segir að þungt hafi verið í fundarmönnum, en hann giskar á að 70 til 80 starfsmenn hafi verið þar. "Menn voru reiðir og svekktir, sérstaklega yfir því að launamenn skyldu ekki vera upplýstir um stöðu mála. Þetta var ekki nokkur framkoma og þeir viðurkenndu það." Fundurinn átti upphaflega að fara fram fyrr um morguninn, en þegar starfsmennirnir komu til fundarins voru stjórnarformaðurinn og lögfræðingur hans ekki mættir. Þegar náðist í þá gáfu þeir þá skýringu að fjölmiðlar hefðu verið á svæðinu, og var því boðaður nýr fundur sem var lokaður fjölmiðlum. Þorsteinn tók það fram að hann vildi hvorki gagnrýna Landsvirkjun né Landsbankann. "Það verja allir sitt í svona stöðu." Hann sagði óánægjuna fyrst og fremst vera með stjórnendur fyrirtækisins. Þótt starfsmenn Slippstöðvarinnar hafi nú látið af beinum aðgerðum munu þeir áfram fylgjast með athafnasvæðinu. Til greina kemur að grípa aftur til aðgerða eigi að flytja verðmæti af athafnasvæðinu. Ekki náðist í Hilmi Hilmisson, stjórnarformann Slippstöðvarinnar, í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×