Innlent

Mega vera án réttinda

"Við tókum eftir því að ekki var verið að greiða þau gjöld sem kveðið er á um til stéttarfélagsins," segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness um á annan tug danskra iðnaðarmanna sem hafa starfað fyrir Ístak að stækkun Norðuráls. Félagið fór fram á að þau gjöld yrðu greidd og fékk þá bréf frá lögfræðingi Samtaka atvinnulífsins sem kom þeim á óvart. "Þeir túlka lögin svo að einungis þurfi að uppfylla lágmarkslaun, yfirvinnugreiðslur, orlofsgreiðslur, lágmarkshvíldartíma og hámarksvinnutíma," segir Vilhjálmur. "Ótal önnur kjaraatriði sem um hefur samist í kjarasamningum síðustu áratugi eru ekki innifalin." Hann nefnir uppsagnarfrest, veikindaréttindi, slysarétt og fleira. "Þetta er í fyrsta skipti sem við fáum þessa skýringu. Séu lögin svona verða menn að gera svo vel að laga þau. Fyrirtæki eru að komast hjá ótal kostnaðarsömum kjaraatriðum þegar þau ráða menn í gegnum starfsmannaleigur. Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir afstöðu Samtaka atvinnulífsins algerlega ólíðandi. "Lagatúlkunin er bara móðgun við verkalýðshreyfinguna," segir hann. "Þau lög sem vísað er til gera ráð fyrir því að greiða eigi lágmarkslaun. Þau eru ákveðin í kjarasamningum. Þessi nýja lína gengur hins vegar út á það að fyrirtæki innan samtakanna þurfi ekki að fylgja ákvæðum kjarasamninga um suma starfsmenn. Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur Samtaka atvinnulífsins, segir Ístak starfa í samræmi við lög um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja. "Ístak er ekki vinnuveitandi þessara manna," segir Hrafnhildur, en þeir eru starfsmenn stórrar danskrar starfsmannaleigu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×