Innlent

Stóðu vörð í nótt

Starfsmenn Slippstöðvarinnar á Akureyri stóðu vörð um fyrirtækið í nótt. Þeir eiga laun hjá Slippstöðinni, en gjaldþrotabeiðni fyrirtækisins verður tekin fyrir á mánudag. Starfsmennirnir hófu aðgerðir sínar í gær með því að logsjóða fyrir dyr fyrirtækisins til að koma í veg fyrir að tæki yrðu flutt þaðan, en farið hefur verið fram á gjaldþrotaskipti Slippstöðvarinnar og verður gjaldþrotabeiðni tekin fyrir á mánudaginn. Starfsmennirnir vilja með aðgerðunum knýja fyrirtækið til að greiða þeim laun sem þeir eiga inni. Þorsteinn Haraldsson er trúnaðarmaður starfsmanna Slippstöðvarinnar. Fyrirtækið lenti í miklum fjárhagsvandræðum þegar ljóst var að tilboð í uppsetningu og samsetningu á stálpípum í fallgöngum Kárahnjúkavirkjunar. Fyrirtækið er undirverktaki hjá þýska fyrirtækinu DSD Noell. Í tilkynningu frá stjórn Slippstöðvarinnar frá í gær segir að fljótlega á verktímanum hafi komið í ljóst að tilboð Slippstöðvarinnar hafi engan veginn staðist og að fyrirsjáanlegt hafi verið stórtap á verkefninu. Þegar ljóst hafi verið í hvað stefndi hafi verið reynt að fá samninginn bættan af hendi DSD en stjórn félagsins hafi metið svör forsvarsmanna þýska fyrirtækisins þannig, að það myndi reynast erfitt. Bréf hafi borist frá DSD þann 9. september þar sem fyrirtækið hafi ákveðið að halda eftir samningsbundnum greiðslum til félagsins. Það var síðan þann 16. september sem þýska fyrirtækið sagði upp samningnum við Slippstöðina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×