Innlent

Margir 35-44 ára tannlausir

Rúmlega 550 einstaklingar á aldrinum 35 til 44 ára eru tannlausir í báðum gómum. Tannlækningastofnun Háskóla Íslands heldur áfram að rannsaka tannheilsu Íslendinga og í fjórða áfanga þeirrar rannsóknar er fjallað um fólk á þessum aldri. Könnunin sýnir að ástandið á tönnum fólks hefur batnað mjög á undanförnum tuttugu árum, fólk burstar tennurnar oftar og fer mun oftar til tannlæknis nú en áður. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að hægt sé að fylgjast með tannheilsu þjóða með því að kanna hlutfall tannlausra. Samkvæmt rannsókninni voru tæp 10% Íslendinga á aldrinum 35 til 44 ára tannlaus í báðum gómum fyrir tuttugu árum. Þessi tala hefur farið ört lækkandi. Tíu árum seinna voru það tæp 6% sem voru tannlaus. Árið 2000 voru það 1,3% fólks á aldrinum 35 til 44 ára sem voru tannlaus í báðum gómum. Íslendingar á þessum aldri voru í árslok árið 2000 tæplega 43 þúsund talsins svo það eru 555 einstaklingar sem voru alveg tannlausir. Fólk var ennfremur spurt um aldur þegar síðasta tönnin var dregin úr efri og neðri góm og er ljóst að stór hluti 35 til 44 ára missti tennurnar þegar á unga aldri. Þannig var síðasta tönnin dregin úr einum af hverjum fimmtán tannlausum undir átján ára aldri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×