Innlent

Hrefnuveiði aukin

Hafrannsóknastofnun ætlar að láta veiða þrjátíu og níu hrefnur í sumar, en tuttugu og fimm voru veiddar í fyrra og þrjátíu og sex árið þar áður. Talsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja segja að miklum hagsmunum sé stefnt í hættu með veiðunum. Í fyrra var rannsóknaráætlun sem miðaði að því að kanna fæðusamsetningu hrefnunnar hrint í framkvæmd. Í henni var gert ráð fyrir að veiða 200 hrefnur í vísindaskyni á tveimur árum og tvö hundrað langreyðar og hundrað sandreyðar á sama tímabili, en hætt var við þær veiðar. Í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun segir að vísbendingar séu um að stærð hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu helstu nytjafiska við landið. Talsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja hafa þegar lýst andstöðu sinni við fyrirhugaðar veiðar í sumar. Þeir benda á að fyrirhugaðar veiðar muni ekki hafa merkjanleg áhrif á hrefnustofninn þannig að ekkert dragi úr fiskáti hrefnunnar þrátt fyrir veiðarnar. Engin útlfutningsmarkaður er fyrir afurðirnar og innanlandsmarkaður lélegur þannig að borga verði með veiðunum og loks stefni þessar veiðar ferðaþjónustu við hvalaskoðun i hættu. Þar séu miklir hagsmunir í húfi því frá árinu 1995 þegar hvalaskoðunarferðir hófust, hafi ferðamönnum í þeim ferðum fjölgað jafnt og þétt úr nokkrum hundruðum fyrsta árið upp í rúm 80 þúsund manns í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×