Erlent

Minnir á lögbannið á tölvupóstunum

Það vakti mikla athygli í gærkvöld, bæði í Noregi og víða annar staðar í Evrópu, þegar undirréttur í Ósló bannaði sjónvarpsþátt sem sýna átti á NRK í gærkvöldi og fjallar um rannsókn bankaráns í Stavangri. Lögbannið var sett aðeins nokkrum klukkustundum áður en þátturinn, „Brennipunktur", átti að fara í loftið. Málið minnir um margt á lögbann sem sett var hér á landi á birtingu Fréttablaðsins á upplýsingum úr tölvuskeytum Jónínu Benediktsdóttur. Það var norska ákæruvaldið sem krafðist þess að þátturinn yrði tekinn af dagsskrá. Ákæruvaldið telur að upplýsingar sem talið er að komi fram í þættinum gætu stefnt lífi og heilsu margra þeirra sem komu að málinu í hættu. Einnig bannaði rétturinn öllum sem að gerð þáttarins komu að tjá sig um efni hans og af hverju lögbann var lagt á sýningu þáttarins. Framkvæmdastjóri Norska blaðamannafélagsins, Per Edgar Kokkvold, segir að lögbannið sé ekkert annað en ritskoðun af hálfu réttarins og skaði trúverðugleika norskrar rannsóknarblaðamennsku. Framkvæmdastjóri Norsku ritstjórasamtakanna segir daginn í gær svartan dag fyrir norska fjölmiðla. Bankaránið var framið í Stavangri hinn 4 apríl 2004. Lögreglumaður var skotinn til bana af ræningjunum sem komust undan með um 600 milljónir íslenskra króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×