Innlent

Settu sig í spor pyntaðra fanga

"Það er skorið á öll skynfæri fanganna í Guantanamo-fangelsinu á Kúbu með eyrnahlífum, rykgrímum og augnhlífum, svo eru þeir látnir sitja þannig í hnipri í allt að 45 mínútur. Við vildum leyfa fólki að kynnast því hvernig það er að verða fórnarlamb slíkra aðferða. Svo gat fólk spurt sig sjálft að því hvort um pyntingar sé að ræða," segir Jón Þór Ólafsson, forsvarsmaður aðgerðarhópsins innan Amnesty International, sem stóð fyrir uppákomunni á Austurvelli í gær en 26. júní er alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna til stuðnings fórnarlamba pyntinga. Jón segir að um 25 manns hafi kynnst aðferðum Bandaríkjastjórnar af eigin raun á Austurvelli í gær. Viðstöddum gafst kostur á því að skrifa undir áskorun þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því að Bandaríkjastjórn gefi leyfi sitt til þess að fram fari rannsókn á öllum ásökunum um illa meðferð á föngum í Guantanamo og að hinir ábyrgu verði látnir svara til saka komi í ljós að í fangelsinu sé notast við ólöglegar aðferðir. Meira en 70 manns skrifuðu undir áskorunina og heldur undirskriftasöfnun áfram á næstunni. Áskorunin verður í kjölfarið send til íslensku ríkisstjórnarinnar. "Fyrsta krafa Amnesty er að þeir sem beri ábyrgð á pyntingunum verði látnir svara til saka, að Amnesty eða svipuð samtök fái að skoða aðstæður í þessum fangabúðum og að eftirlitsfulltrúi SÞ, með framfylgd alþjóðlegs samnings sem bannar pyndingar, fái óheftan aðgang að búðunum en honum hefur hingað til verið neitað um aðganginn. Fjórða krafan er að þeir sem eru í haldi vegna stríðsins gegn hryðjuverkum fái réttláta málsmeðferð fyrir dómsstólum, og að þeir verði leystir úr haldi ef engar ákærur liggja fyrir að því loknu. Seinasta krafan er að Guantomano verði lokað," segir Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International, um kröfur nýs samræmds átaks Amnesty gegn pyntingum í heiminum sem hófst formlega í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×