Innlent

Pyntingar á Austurvelli í dag

Íslandsdeild Amnesty International bauð gestum og gangandi upp á pyntingar á Austurvelli í dag. Þar var verið að líkja eftir pyntingum sem fangar í Guantanamo-fangelsinu á Kúbu verða fyrir af hálfu bandarískra hermanna. Samkvæmt Amnesty International kallast ein pyntingaraðferðin sem notast er við í Guantanamo-fangelsinu „álags- og þvingunarmeðferð“. Þá eru fangarnir yfirheyrðir í allt að 20 tíma, fara í einangrun í allt að 30 daga og lokað er á öll skynfæri í allt að þrjá sólarhringa. Sett eru heyrnarskjól yfir eyrun, svört gleraugu sem birgja algerlega sýn, andlitsgríma til að varna lyktarskyni og dulur yfir hendurnar. Amnesty International á Íslandi krefst þess að föngum á Guantanamo verði birt ákæra, ellegar sleppt úr haldi, að óháð rannsókn fari fram á starfsemi fangabúðanna og að eftirlitsmanni Sameinuðu þjóðanna verði hleypt í búðirnar til að huga að aðbúnaði fanganna. Á vegum samtakanna á Íslandi fer nú fram undirskriftarsöfnun þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að mótmæla meðferð fanga í Guantanamo fangelsinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×