Innlent

Söfnun vegna hamfaranna

Liðlega hundruð tuttugu milljónir króna söfnuðust í landssöfnuninni Neyðarhjálp úr norðri sem haldin var til styrktar fórnarlömbum hamfaranna við Indlandshaf en söfnunin hefur staðið yfir síðastliðið hálft ár. Það voru Barnaheill á Íslandi, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði kross Íslands, SOS-barnaþorpin og UNICEF-Barnahjálp sameinuðu þjóðanna sem fengu það hlutverk að úthluta því sem safnaðist til hamfarasvæðanna. Áður höfðu safnast um hundrað milljónir hér á landi og því má segja að framlag Íslendinga sé rúmlega tvö hundruð milljónir. Hólmfríður Anna Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, segir að söfnunin sé umfangsmesta söfnun sem haldin hefur verið hér á landi. "Þetta fór framar okkar vonum en við vissum í raun ekkert við hverju var að búast þannig þetta er afar ánægjulegt. Hjálparstarf og framlög geta áorkað miklu og við viljum hvetja fólk til að gefa áfram til bágstaddra."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×